Sigrún Hannyrðapönkari

Sigrún Bragadóttir er feminískur hannyrðapönkari og textíllistakona, ásamt því að kenna list- verkgreinar í Hólabrekkuskóla, Reykjavík.

Sigrún hefur starfað sem kennari í almennum, og einkareknum, leik- og grunnskólum frá árinu 1998 . Í starfi sínu með börnum og unglingum hefur Sigrún ávallt lagt áherslu á skapandi skólastarf, ýmist í gegnum myndlist, tónlist, hreyfingu, útiveru og aðra listræna tjáningu.

Einnig hefur Sigrún verið virk í starfi Stígamóta, m.a. með þáttöku í fjáröflunarátakinu Styttum svartnættið og starfað sem leiðbeinandi í sjálfshjálparhópum samtakanna.

Sigrún hefur haldið nokkrar einkasýningar, verið með 4 þætti á Rás 1 um hannyrðapönk, ásamt því að hafa verið með allskonar smiðjur tengda hannyrðapönki.

 Menntun:

Veturinn 1992-1993 var Sigrún á listnámsbraut í Fana lýðháskólanum í Bergen, Noregi. Þar lærði hún m.a. textíllitun, að setja upp vefstóla, að vefa úr ull, teikningu með mismunandi miðlum, grafík, módelteikningu og klippimyndagerð.

Vorið 1998 útskrifaðist hún frá Kennaraháskóla Íslands með B.Ed. gráðu í íslensku og ensku.

Haustið 2021 hóf Sigrún meistaranám í kennslu list- og verkgreina við Háskóla Íslands með áherslu á sjónlistir, með textíl sem valgrein.

sigrunponk