Vefnaðarloft

Vefstólarnir eru staðsettir á þriðju hæð í Kvennaskólanum, þar er ágætis vinnuaðstaða og geymslurými. Útsýnið er stórkostlegt og sést vel hvernig áin Blanda sameinast hafinu við ósinn. 

Fjórar mismunandi stærðir eru á vefstólunum: 80, 120, 130 og 135cm. Þetta eru 4, 6 og 8 skafta og skammela gagnbindingarvefstólar en einnig eru tveir litlir trissuvefstólar. Listamenn sem dvelja í listamiðstöðinni hafa fullan aðgang að vefstólunum og þeim tækjum sem með þeim fylgja. Í vefstofunni er einn lóðréttur myndvefnaðarstóll sem listamenn hafa aðgang að. Vefbreiddin er 85 cm og í vefstólnum eru tvö hafaldasköft, skeið og tvö skammel. Vefstóllinn er Norskur að uppruna og flokkast sem Norrænn myndvefnaðarstóll.

Það sem má finna á vefnaðarlofti er: 

  • 8x gagnbindingarvefstólar 
  • 2x trissuvefstólar
  • 1x lóðréttur myndvefnaðarstóll
  • mikið úrval af skeiðum
  • 1x stór rakgrind
  • garnvindur
  • skyttur
  • spólurokkar 

Listamenn eru vinsamlegast beðnir um að hafa meðferðis nauðsynlega hluti eins og málband, skæri, garn og eigin skyttur, ef þeir kjósa. Á staðnum er til lítill lager af ull, bómull og hör sem hægt er að kaupa á skrifstofu.

Vefstólarnir eru nokkuð gamlir og sögulegir og því biðjum við listamenn vinsamlegast um að meðhöndla þá af natni. Þeir gætu verið frábrugðnir þeim vefstólum sem listamenn hafa notað áður og því er nauðsynlegt að þeir hafi reynslu af gagnbindingarvefstólum áður en þeir nota vefstólana hérna. Ekki er boðið upp á vefnaðarkennslu, nema það sé auglýst sérstaklega.

 Vefnaðarloft í Kvennaskólanum. Ljósmynd: Textílmiðstöð.