THREADs 2024–2027: „Textile and Habiliment Reuse for the Environment and NPA Area Development“ er samstarfsverkefni styrkt af INTERREG. Meðal samstarfsaðila eru Kajaani háskólinn í Finnlandi, sem leiðir verkefnið, Háskólinn í Borås, Luleå Miljöresurs AB (Svíþjóð), Western Development Commission og Technological University of the Shannon (Írland), Remiks Husholdning AS (Noregi) og Textílmiðstöð Íslands. Verkefnið ber yfirskriftina „Frá hönnun til förgunar“ og beinist að textílúrgangi – hvernig söfnun hans fer fram, hvað verður um úrganginn og hvernig hægt er að endurvinna og endurnýta hann. Sérstök áhersla er lögð á vistvæna textílhönnun og leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum textílvinnslu og förgunar. Markhópar verkefnisins eru hagsmunaaðilar í úrgangsstjórnun, neytendur, hönnuðir, handverksfólk, kennarar og fyrirtæki. Textílmiðstöð Íslands mun koma að gagnasöfnun um textílsorp, söfnun og nýtingu þess hér á landi, ásamt því að skipuleggja kynningarviðburði og vinnustofur í TextílLab. Upphafsfundur verkefnisins var haldinn á Blönduósi í lok október 2024 og vinnufundur í Borås, Svíþjóð í febrúar 2025.
Tracks4Crafts 2023-2026: Samstarfsverkefni sem hlaut styrk úr Horizon 2022 áætlun Evrópusambandsins. Að verkefninu standa 16 stofnanir, þar að meðal University of Antwerpen, University Paris I Panthéon-Sorbonne, Association of European Open Air Museums og World Crafts Council Europe. Verkefnið snýst um að þróa nýjar viðskiptahugmyndir með frumkvöðlum og tengja saman menningararfinn og stafrænar aðferðir. Vegna þess að þegar hefur verið unnið mjög vel heppnað hagnýtt rannsóknarverkefni í vefnaði hjá okkur (þar sem áherslan var einmitt á að tengja saman menningararfinn og stafræna tækni) var ákveðið að þáttur Textílmiðstöðvarinnar í rannsóknarþætti verkefnissins snéri að prjóni og útsaumi. Kick-Off fundur var haldinn í Antwerpen í lok mars 2023. Heimasíðu verkefnisins: www.tracks4crafts.eu/
Prjónagleðin - Iceland Knit Fest er árleg prjónahátíð sem haldin er á Blönduósi aðra helgi í júní, frá árinu 2016, á vegum Textílmiðstöðvar Íslands og samstarfsaðila. Markmið hátíðarinnar er að sameina prjónafólk og skapa vettvang fyrir miðlun prjónasagna, hugmynda, aðferða og hefða – með gleðinni í fyrirrúmi. Hátíðin samanstendur af fjölbreyttum námskeiðum með úrvalskennurum, fyrirlestrum og prjónatengdum viðburðum. Markaðstorgið er stór hluti af hátíðinni, þar sem handlitarar, smáspunaverksmiðjur, handverksfólk og garnverslanir bjóða upp á fjölbreyttan varning. Frá og með 2025 hefur Húnabyggð tekið við skipulagi og framkvæmd Prjónagleðinnar. Í tengslum við Prjónagleðina hefur ætíð verið haldin hönnunar- og prjónasamkeppni með ákveðnu þema sem útfært er í prjónlesi:
2016 Íslenska sauðkindin - spuna- og prjónakeppni
2017 Own our own time – prjónagjörningur
2018 Fullveldispeysa
2019 Hafið útfært í sjali
2020 Áin Blanda útfærð í húfu
2021 Áferð í náttúru Íslands útfærð í vesti
2022 Huldufólk samtímans
2023 Nýnot: Íslenska lopapeysu
2024 Jólahúfu (með raftextíl)
,,ALLURE” 2021-2024: Textílmiðstöð Íslands tók þátt í Evrópuverkefninu ALLURE sem styrkt er af Erasmus+. ALLURE er nýsköpunarverkefni sem snýr að því að bæta aðgengi að menningarstöðum og -athöfnum til símenntunar. Í byrjun september 2022 kom starfshópur verkefnisins í heimsókn til okkar á Blönduós víðsvegar frá Evrópu; Póllandi, Spáni og Portúgal. Hluti verkefnis snýr að því að búa til snjallforrit fyrir menningarstofnanir til að nota sem eykur aðgengi allra að upplýsingum, þar er notast við þróaða tækni í aðgengismálum á borð við staðlaðar táknmyndir, lesblinduletur, texta á bakvið myndir fyrir vefþulu að lesa og margt fleira. Snjallforritið heitir CIMA og hvetjum við menningarstofnanir eða þá sem sinna einhverju viðburðarhaldi að prófa og birta upplýsingarnar á þessu einfalda og aðgengilega formi fyrir alla að lesa. CIMA snjallforritið má nálgast hér: http://cima.allureculture.eu/
CENTRINNO 2020 - 2024: Textílmiðstöð Íslands tók þátt í stóru Evrópuverkefni CENTRINNO, ásamt Háskóla Íslands. CENTRINNO stendur fyrir New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation. Verkefnið hlaut 8,2 milljón evra styrk (1,3 milljarður ISK) úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins og hófst 1. september 2020. Þátttakendur voru 26 stofnanir og fyrirtæki í níu Evrópuborgum; þar á meðal WAAG and Metabolic Institute í Amsterdam, Volumes og Sony CLS in París, IAAC í Barcelona, Danish Design Center í Kaupmannahöfn, FabLab Zagreb, Tallinn University of Technology og WeMake í Mílan. Í því samhengi hlaut Textílmiðstöð einnig styrk frá Innviðasjóði Rannís sumarið 2020 sem ætlaður er til uppbyggingar innviða til rannsókna á textíl, m.a. með tækjakaupum. TextílLab Textílmiðstöðvarinnar var formlega opnuð þann 21. maí 2021 í tengslum við HönnunarMars 2021. Myndband "Blönduós Pilot" má sjá hér á Youtube. Heimasíða verkefnisins: www.centrinno.eu