Einstakt tækifæri - alþjóðlegur styrkur til Textílmiðstöðvarinnar

Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi tók þátt í umsókn á stóru Evrópuverkefni; CENTRINNO undir áætluninni, Horizon 20/20, ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands. Verkefnið hefur nú fengið vilyrði fyrir styrk og er ætlað til þriggja og hálfs árs. Ef allt gengur eftir mun það hefjast í haust.

Verkefnið snýst um að nota menningararfinn sem innblástur til nýsköpunar og blása lífi í fyrrum blómleg borgarhverfi og landshluta og er mikil áhersla lögð á að nýta möguleika stafrænnar tækni. Samstarfsborgir Blönduóss í verkefninu eru París, Barcelona, Kaupmannahöfn, Zagreb, Tallinn, Genf, Amsterdam og Mílanó. Verkefnið á Íslandi hefur þá sérstöðu að það nær til landsins alls. Í verkefninu er mikil áhersla á að nýta möguleika stafrænnar tæki og að efla kunnáttu í að nýta stafræna tækni til framleiðslu.

Stefnt er að frekari eflingu Textílmiðstöðvar Íslands sem blómlegri miðstöð þar sem sérfræðingar, hönnuðir, handverks- og listafólk og kennarar á textílsviði geta fengið aðgang að nútímalegri aðstöðu til rannsókna, þróunar og kennslu. Til að hægt sé að nýta styrkinn sem best þarf því Textílmiðstöðin að festa kaup á tækjum og tólum til að fólk eigi þess kost að tileinka sér þá miklu mögleika sem stafræn tækni býður uppá og hafa þau aðgengileg um leið og verkefnið fer í gang. Verkefnið styrkir tækjakaup að hluta.

Ef vel tekst til og það tekst að afla mótframlags til tækjakaupa og hægt verður að koma tækjunum fyrir hjá Textílmiðstöðinn skapar styrkurinn einstakt tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á sviði textíl á landsvísu.