Alþjóðlegt samstarfsverkefni og uppbygging textíls á Blönduósi

Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi tekur þátt í stóru Evrópuverkefni; CENTRINNO undir áætluninni, Horizon 2020, ásamt Háskóla Íslands. Það er ætlað til þriggja og hálfs árs og hófst 1. september 2020. CENTRINNO stendur fyrir New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation. 

Verkefnið snýst um að nota menningararfinn sem innblástur til nýsköpunar, en mikil áhersla lögð á að nýta möguleika stafrænnar tækni. Að verkefninu standa 26 stofnanir og fyrirtæki í níu Evrópuborgum, þar á meðal WAAG and Metabolic Institute í Amsterdam, Volumes og Sony CLS in París, IAAC í Barcelona, Danish Design Center í Kauphannahöfn, FabLab ZagrebTallinn University of Technology og WeMake í Milan. Verkefnið er stýrt frá Mílanóborg og verkefnisstóri er Roberto Nocerino. 

Í verkefninu er lögð áhersla á að nýta möguleika stafrænnar tæki og að efla kunnáttu í að nýta stafræna tækni til framleiðslu. Stefnt er að frekari eflingu Textílmiðstöðvar Íslands sem miðstöð nýsköpunar og þekkingar í stafrænni textílframleiðslu (TextílLab) sem byggð er á menningararfi og handverkskunnáttu íslenskra kvenna með sérstakri áherslu á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar. Uppbygging TextílLabs á Blönduósi er unnin í samstarfi við textílfólk allsstaðar á Íslandi, samstarfsaðila í Evrópuverkefninu sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á uppbyggingu TextílLabs og lista- og fræðafólks í Kanada, Bandaríkunum og víðar.  

Þorgerður J. Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mun ásamt Laufeyju Axelsdóttur nýdoktor í kynjafræði, kanna og kortleggja umgjörð, bakgrunn og sögu textíliðnaðar á Íslandi. Í því felst að skoða núverandi landslag starfsemi á sviði textíls, þróun í sögulegu samhengi, samfélagslegt umfang og mikilvægi, menningarlegar rætur og kynjasjónarmið. Skoðað er hvernig hefðir og menningararfleifð geta verið innblástur og hvati til endursköpunar á nýjum tímum og í nýju samhengi. Meðal annars er spurt hvernig textíllinn og handverkið geta tekið skrefið inn í framtíðina á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Skapar styrkurinn því einstakt tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á sviði textíl. 

CENTRINNO hlaut 8,2 milljón evra styrk (1,3 milljarður ISK) úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Heildarstyrkur íslensku þátttakendanna er í kringum 130 milljónir íslenskra króna. 

www.centrinno.eu