Velkomin á Prjónagleðina 2022!

Kæra prjónafólk, verið öll hjartanlega velkomin á Prjónagleðina 2022.

Prjónagleðin er prjónahátíð sem haldin er á Blönduósi aðra helgina í júní árlega.  Markmið Prjónagleðinnar hefur frá uppaf verið að sameina prjónafólk og skapa því vettvang til þess að hittast og miðla prjónasögum, nýjum hugmyndum og aðferðum, gömlum hefðum og síðast en ekki síst prjónagleðinni í öllum sínum fjölbreytileika. 

Prjónagleðin er alltaf að stækka og að þessu sinni munum við halda hvorki meira né minna en 25 námskeið sem er algjört met. Áhugaverðir fyrirlestrar eru á sínum stað auk nokkurra örkynninga á prjónatengdum viðfangsefnum. Garntorgið er á sínum stað í Íþróttamiðstöðinni og þar verður boðið upp á garnveislu svo ekki sé nú meira sagt. 30 söluaðilar koma saman undir einu þaki og selja spennandi vörur fyrir prjónalífið. Við vonum að það verði nóg pláss fyrir alla þá sem vilja setjast niður með prjónana á prjónakaffihúsinu á Garntorginu og þar verður einnig að finna tóvinnusvæði þar sem tóvinnufólki býðst vinnuaðstaða á meðan á hátíðinni stendur.

Okkur til mikillar ánægju eru nokkrar prjónasýningar á hátíðinni í ár. Fyrst má nefna lambhúshetturnar sem tóku átt í Hönnuar- og prjónasamkeppni Prjónagleðinnar og eru til sýnis á Garntorginu, þar sýna einnig Helga Thoroddsen og Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir prjónahönnun sína. Í anddyri Félagsheimilisins gefur á að líta sýningu á prjónahönnun og verkum Thelmu Steimann, sú sýning verður opin á föstudagskvöldið og á laugardaginn.

Mig langar að þakka heimafólki fyrir frábært samstarf og mikinn áhuga á þessum dásamlega viðburði. Það er alveg sama til hverra er leitað allir eru boðnir og búnir til að aðstoða eftir fremsta megni og fleiri og fleiri sjá ástæðu til þess að fitja upp á einhverju skemmtilegu til að bjóða gestum okkar þessa helgi. 

Að lokum óska ég okkur öllum gleði og hamingju á Prjónagleðinni 2022, án ykkar allra yrði þessi viðburður ekki að veruleika. Kennarar, fyrirlesarar, prjónarar, garnlitarar, verslunareigendur, sjálfboðaliðar og gestir, NJÓTUM!

Svanhildur Pálsdóttir, viðburðastjóri Prjónagleðinnar.