Síðastliðið haust auglýsti Textílmiðstöðin eins mánaðar sjálfboðaliðaverkefni sem beindist að viðgerð og viðhaldi prjónavéla (13 samtals) í Textílmiðstöðinni. Auglýst var eftir einstaklingum sem höfðu bakgrunn í textíl með áherslu á tæknilega kunnáttu að koma og aðstoða við að koma í gagnið handknúnum prjónavélum. Þær elstu eru frá upphafi síðustu aldar og þær yngstu frá seinni hluta aldarinnar. Áhuginn kom ánægjulega á óvart en alls bárust 300 umsóknir. Ákveðið var að bjóða 4 einstaklingum að koma og fyrstu þátttakendur komu nú í byrjun janúar. Það eru þær, Sarah Grobe frá Þýskalandi og Wendy Wood frá Bretlandi.
Sarah Grobe er textílverkfræðingur með sérhæfingu í prjóni á iðnaðarvélar og prjónahönnun. Hún er með meistaragráðu í hönnun textílvara og hefur í mörg ár einkum starfað við framleiðslu og þróun prjónavara. Sarah hefur sérstakan áhuga á tengslum handverks og tækni og rekur samhliða sinni vinnu lítið prjónafyrirtæki sem notar endurunnið garn. Hún lítur ekki einungis á prjónavélar sem verkfæri, heldur sem samstarfsaðila með eigin sögu og persónuleika.
Wendy Wood er textílhönnuður sem vinnur við iðnaðarframleiðslu á prjónavörum. Hún lauk BFA-gráðu í textílhönnun frá Rhode Island School of Design árið 2010. Eftir nokkur ár sem prjónasérfræðingur í New York lauk hún þriggja ára starfsnámi sem prjónavélaforritari hjá STOLL America. Þar öðlaðist hún tæknilega þekkingu á stafrænum iðnaðar prjónavélum. Auk þess hefur hún yfir fimmtán ára reynslu af því að vinna með heimilis- og iðnaðarvélar og hefur kennt prjón og frumgerðasmíði í textíl bæði í New York og London.