Styrkveiting frá Nýsköpunarsjóði námsmanna

RANNÍS hefur tilkynnt um niðurstöðu fyrri úthlutunar úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir árið 2020. Þar á meðal er samstarfsverkefni Textílmiðstöðvarinnar og hönnunardeildar Listaháskóla Íslands: Hugmyndavinna og framtíðarsýn fyrir húsakynni Kvennaskólans og Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi, og samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands, Textílmiðstöðvar Íslands, fatasöfnunar Rauða Krossins og Háskóla Íslands: Flokk till you drop.

Verkefnið Hugmyndavinna og framtíðarsýn fyrir húsakynni Kvennaskólans byggist á grunni sem var lagður í janúar 2020 þegar nemendur úr arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands dvöldu í Kvennaskólanum undir leiðsögn Birtu Fróðadóttur arkitekts. Í lok dvalarinnar var haldin kynningarfundur á hugmyndavinnu um notkunarmöguleikar á húsakynnum Kvennaskólans á Blönduósi. 

Flokk till you drop vísar til og er ádeila á orðatiltækið Shop till you drop. Verkefnið stuðlar að því að efla vitund um neyslumenningu Íslendinga og beina kastljósinu að því magni fatnaðar og textíls sem gefinn er til Rauða Krossins. Nemendurnir munu skoða hvers konar fatnað fólk er að gefa til fatasöfnunarinnar, og hvernig megi nýta og skapa flíkunum sem best framhaldslíf. Verkefnið felur því allt í senn í sér flokkunarstöð, rannsóknarstöð og listaverkstæði. Leiðbeinendur eru Eva María Árnadóttir, aðjúnkt og starfandi fagstjóri við námsbraut í fatahönnun, Guðbjörg Rut Pálmadóttir, flokkunarstjóri hjá fatasöfnun Rauða Krossins, Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Nánar má lesa um úthlutunina á heimasíðu Rannís og Listaháskólans