Ársfundur Samtaka þekkingarsetra

Ársfundur Samtaka þekkingarsetra var haldinn 27.-28. ágúst í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi.

Á dagskránni voru kynningar þekkingarsetra, en alls starfa sjö slík setur víðsvegar um landið: Nýheimar, Austurbrú, Þekkingarnet Þingeyinga, Þekkingarsetur Suðurnesja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Háskólafélag Suðurlands og Textílmiðstöð Íslands. Þekkingarsetrin sinna fjölbreyttum verkefnum á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar, menningar, skapandi greina og atvinnuþróunar, en leggja mismunandi áherslur eftir aðstæðum og styrkleikum hvers svæðis. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, var viðstaddur kynningarnar og flutti ávarp.

Fulltrúar setranna fóru í skoðunarferð um gamla bæinn á Blönduósi og heimsóttu jafnframt TextílLab Textílmiðstöðvarinnar og ullarþvottastöð Ístex.

Við þökkum kærlega fyrir ánægjulega samveru!