HönnunarMars 2020

Textílmiðstöð Íslands verður í fyrsta sinn þátttakandi á HönnunarMars 2020 (24. - 28. júní). Textílmiðstöð stendur fyrir sýningunni „Hefðbundin munstur í stafrænni framtíð“, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Verður þar kynntur afrakstur tveggja verkefna Textílmiðstöðvar sem sýna fram á möguleika í stafrænni tækni í vefnaði og hönnun. 

Ragnheiður Björk Þórsdóttir verkefnisstjóri og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir fatahönnunarnemi munu kynna ,,Bridging textiles to the digital future”, þriggja ára rannsóknaverkefni Textílmiðstöðvar styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið felur í sér greiningu á gömlum vefnaðargögnum, varðveitt í Kvennaskólanum á Blönduósi, auk uppbyggingar á rafrænum gagnagrunni sem m.a. textíliðnaðurinn og textílhönnuðir munu hafa aðgang að. Þar með opnast möguleikar til að þróa ný munstur og nýta í nýsköpun í textíl og iðnaðarframleiðslu. 

Sýndar verða prufur, efni og áklæði sem eru ofin í TC2 stafrænum vefstól þar sem munstrin byggja á gamalli vefnaðarhefð. Jafnframt verður sýndur afrakstur af samstarfsverkefni Myndlistarskólans í Reykjavík og Textílmiðstöðvar, ,,Nýsköpun í textíl”, styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Þar unnu nemendur í textílhönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, Ragnheiður Stefánsdóttir, Sigríður Vala Vignisdóttir, Drífa Thoroddsen og Margrét Katrín Guttormsdóttir, stafrænar útfærslur af gömlu vefnaðarmunstrunum og tillögur að textílvöru fyrir Textílmiðstöðina.  

Caroline Huf áströlsk kvíkmynda- og videolistakona sem dvaldi í Textíllistamiðstöð í vetur nýtti sér gömlu munstrin sem innblástur og til varð videolistaverk sem fléttar saman gamla og nýja tækni og verður á skjá á meðan sýningunni stendur yfir.  

Sýningin verður haldin að Hverfisgötu 82 í Reykjavík, í Bismút gallerí. 

Formleg opnun verður miðvikudaginn 24. júní frá kl. 17:00 - 20:00. Aðra daga verður opið frá kl. 12:00 - 17:00. 

Allir velkomnir!

Fleiri upplýsingar má finna á designmarch.is