Verkefni í vinnslu

Nýsköpun í textíl (2019 - 2020) / HönnunarMars. Textílmiðstöð Íslands verður í fyrsta sinn þátttakandi á HönnunarMars 2020, uppskeruhátíð í Reykjavík sem sameinar allar greinar íslenskrar hönnunar. Meðal verkefna sem kynnt verða er ,,Bridging Textiles to the Digital Future“ og ,,Nýsköpun í textíl", samstarfsverkefni Myndlistaskólans í Reykjavík og Textílmiðstöðvarinnar sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2019. Ragnheiður Stefánsdóttir, Sigríður Vala Vignisdóttir, Drífa Thoroddsen og Margrét Katrín Guttormsdóttir unnu með vefnaðarmunstur sem varðveitt eru í Kvennaskólanum á Blönduósi í þeim tilgangi að hanna úr þeim nýja vöru. Útfærslur þeirra voru kynntar í Myndlistaskólanum í Reykjavík í águst 2019. 

Flokk till you drop (2020). Heiti verkefnisins Flokk till you drop vísar til og er ádeila á orðatiltækið Shop till you drop sem flestir þekkja. Verkefnið stuðlar að því að efla vitund um neyslumenningu Íslendinga og beina kastljósinu að því magni fatnaðar og textíls sem gefinn er til Rauða Krossins. Nemendurnir munu skoða hvers konar fatnað fólk er að gefa til fatasöfnunarinnar, og hvernig megi nýta og skapa flíkunum sem best framhaldslíf. Verkefnið felur því allt í senn í sér flokkunarstöð, rannsóknarstöð og listaverkstæði. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir árið 2020 (þrjá nemendur í þrjá mánuði fyrir hvern nemanda). Verkefnið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands, Textílmiðstöðvar Íslands, fatasöfnunar Rauða Krossins og Háskóla Íslands, leiðbeinendur eru Eva María Árnadóttir, aðjúnkt og starfandi fagstjóri við námsbraut í fatahönnun, Guðbjörg Rut Pálmadóttir, flokkunarstjóri hjá fatasöfnun Rauða Krossins, Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
 

Hugmyndavinnu og framtíðarsýn fyrir húsakynni Kvennaskólans. Um er að ræða samstarfsverkefni Textílmiðstöðvarinnar og hönnunardeild Listaháskóla Íslands sem byggist á grunni sem var lagður í janúar 2020 þegar nemendur úr arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands dvöldu í Kvennaskólanum undir leiðsögn Birtu Fróðadóttur arkitekts. Í lok dvalarinnar var haldin kynningarfundur á hugmyndavinnu um notkunarmöguleikar á húsakynnum Kvennaskólans á Blönduósi. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir árið 2020. 

CENTRINNO - Europe Horizon 2020. Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi tók þátt í umsókn á stóru Evrópuverkefni; CENTRINNO undir áætluninni, Horizon 20/20, ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands. Verkefnið er búið að fá vilyrði fyrir styrk og er ætlað til þriggja og hálfs árs og ef allt gengur eftir mun það hefjast í haust. Verkefnið snýst um að nota menningararfinn sem innblástur til nýsköpunar og blása lífi í fyrrum blómleg borgarhverfi og landshluta og er mikil áhersla lögð á að nýta möguleika stafrænnar tækni. Samstarfsborgir Blönduóss í verkefninu eru París, Barcelona, Kaupmannahöfn, Zagreb, Tallinn, Genf, Amsterdam og Mílanó. 

Verkefnið á Íslandi hefur þá sérstöðu að það nær til landsins alls. Í verkefninu er mikil áhersla á að nýta möguleika stafrænnar tæki og að efla kunnáttu í að nýta stafræna tækni til framleiðslu. Til að hægt sé að nýta styrkinn sem best þarf því Textílmiðstöðin að festa kaup á tækjum og tólum til að fólk eigi þess kost að tileinka sér þá miklu mögleika sem stafræn tækni býður uppá og hafa þau aðgengileg um leið og verkefnið fer í gang. En verkefnið styrkir tækjakaup að hluta. Stefnt er að frekari eflingu Textílmiðstöðvar Íslands sem blómlegri miðstöð þar sem sérfræðingar, hönnuðir, handverks- og listafólk og kennarar á textílsviði geta fengið aðgang að nútímalegri aðstöðu til rannsókna, þróunar og kennslu. Ef vel tekst til og það tekst að afla mótframlags til tækjakaupa og hægt verður að koma tækjunum fyrir hjá Textílmiðstöðinn skapar styrkurinn einstakt tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á sviði textíl á landsvísu.

Frá hefðbundnum textíl til stafrænnar framtíðar - „Bridging Textiles to the Digital Future“ (2017-2020).

Prjónagleði - Icelandic Knit Fest, 11. - 13. júní 2021. Prjónagleðin er árleg prjónahátið sem haldin er af Textilmiðstöð Íslands og samstarfsaðilum. Hátíðin er haldin á Blönduósi og er fyrirmynd hennar hin árlega Prjónahátíð á Fanø í Danmörku. Ákveðið hefur verið að fresta Prjónagleðinni 2020 til 2021, vegna Covid-19 faraldursins.