Rannsóknir

Hjá Textílmiðstöðinni eru stundaðar öflugar rannsóknir.  Síðan 2016 hefur áherslan verið lögð á nýsköpun og stafrænan textíl. Meðal verkefna undanfarinna ára er Bridging Textiles to the Digital Future sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís og skoðanakönnun um viðhorf bænda til ullarinnar. Textílmiðstöðin tekur einnig þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, en í því sambandi má nefna CENTRINNO sem hlaut styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins, THREADs Interreg og Tracks4Crafts sem hlaut styrk úr Horizon 2022 áætlun Evrópusambandsins. 

Við erum ávallt að leita að nýjum tækifærum í rannsóknar- og þróunarverkefnum. 

Útgefið efni tengt rannsóknaverkefnum:  

  •  Íslenski textílklasinn – þverfaglegt samstarf um eflingu textílframleiðslu á Íslandi (2025). Skýrslan „Íslenski textílklasinn – þverfaglegt samstarf um eflingu textílframleiðslu á Íslandi“ var unnin fyrir Textílmiðstöð Íslands árið 2025 og fjallar um stöðu textíliðnaðarins hér á landi. Hún byggir á undirbúningsvinnu sem Textílmiðstöðin hafði áður hlotið styrk til úr Lóu - nýsköpunarstyrk á landsbyggðinni, en í þessu skrefi bættust við djúpviðtöl við 18 aðila sem gætu orðið klasafélagar, greining á efnahagslegum umsvifum textíliðnaðar á Íslandi og svokölluð demantagreining sem styðst við fræði Michael Porter um klasastarfsemi. Demantagreiningin metur hvort forsendur séu til staðar til að mynda klasa á tilteknu sviði og á ákveðnum stað.  Skýrsluna má finna hér. 

  • "Spjörum okkur" (2025): Í framhaldi af ársfundi Textílmiðstöðvarinnar þann 31. mars 2025 var haldinn vinnustofa í samstarfi við SSNV í Félagsheimilinu á Blönduósi. Skoðuð var söfnun og móttaka, endurvinnsla með áherslu á að lengja líftíma textílsins. Einnig voru fræðslumálin skoðuð sérstaklega en á fundinum voru fulltrúar allra skólastiga. Greinargerð um niðurstöðurnar má finna hér.