Prjónasamkeppni 2020: Höfuðfat ,,Blanda"

Ákveðið hefur verið að fresta Prjónagleði til 2021, en til að viðhalda sköpunar- og prjónagleðinni munum við halda óbreytt áfram með prjónasamkeppnina undir yfirskriftinni “Blanda”! 

Blanda er ein af lengstu ám Íslands og á upptök sín við rætur Hofsjökuls. Hún rennur síðan 125 km leið í Húnaflóa þar sem bærinn Blönduós byggðist. Blanda var mikill farartálmi fyrr á tímum en með tilkomu brúar við ósa Blöndu er vígð var 25. ágúst 1897 gjörbreyttust samgöngur.  Blanda hefur hin síðari ár verið mikil laxveiðiá.

Samkeppnin fer þannig fram að þátttakendur prjóna höfuðfat, senda okkur myndir og upplýsingar um höfuðfatið sem við síðan birtum á Facebook-síðu Prjónagleðinnar. Gestir síðunnar kjósa sitt uppáhalds höfuðfat í framhaldinu og þeir vinna sem fá flest stig. Ekki verða birt nöfn hönnuða fyrr en við tilkynningu á vinningshöfum. 

Forsendur/verklýsing:

  • Prjónað verður fullbúið höfuðfat. (Stærð skiptir ekki máli).

  • Ný hönnun/mynstur.  Óheimilt að nota áður útgefin prjónamynstur.

  • Höfuðfatið þarf að vera prjónað en þó mega kantar og skraut vera með annari tækni og hráefni.

  • Einungis má prjóna úr íslensku ullarbandi sem unnið er á Íslandi.

  • Senda skal eina mynd af hverju höfuðfati í skilaboð á Facebókarsíðu Prjónagleðinnar; Prjónagleði Icelandic Knit Fest

  • Með skilaboðunum þarf að koma fram heimilisfang og símanúmer.

Hægt er að senda inn myndir á skilaboð, jafnharðan og flíkin er tilbúin en fyrstu myndirnar verða birtar um 25. maí 2020 . Hægt verður að kjósa til 12. júní.