Önnur aðstaða og tæki

Ull og ullarvinnsla
Íslenska ullin er þekkt um allan heim og auðvelt er að finna hana hér. Í verslunum á Blönduósi er hægt að finna gott úrval af ullargarni. Á Blönduósi er einnig eina ullarþvottastöð landsins en hún er rekin af Ístex. Hingað kemur öll ull bænda til þvotta áður en hún fer suður í Ístex í spuna. Þvottatíminn er venjulega frá byrjun nóvember til loka maí. Listamenn eru velkomnir að heimsækja ullarþvottastöðina þegar á þvottatíma stendur. Listamönnum býðst líka tækifæri til að heimsækja sauðfjárbændur þegar tækifæri gefst hjá bændum til að taka á móti fólki. Báðar þessar heimsóknir verða þó að vera í samráði við starfsmenn Textílmiðstöðvarinnar.

TextílLab
Fyrsta stafræna textílsmiðjan á Íslandi, TextílLab á vegum Textílmiðstöðvarinnar, var formlega opnuð á Þverbraut 1 á Blönduósi þann 21. maí 2021. Textílsmiðjan er útbúin stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi. Þegar hefur verið fjárfest í stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél, auk leiserskera og vínylprentara. Hægt er að hafa samband við okkur (textilmidstod@textilmidstod.is) ef þið hafið áhuga að nota aðstöðina eða ef spurningar vakna. Vinsamlegast athugið að TextílLab er ekki innifalið í dvölinni í listamiðstöðinni. Verðskrá er í vinnslu. 

 
 
 .      .  .