Hanna Dís Whitehead

Hanna Dís Whitehead útskrifaðist árið 2011 sem hönnuður frá Design Academy Eindhoven. Hún vinnur á mörkum hönnunar, listar og handverks. Í verkum sínum vinnur hún á persónulegan hátt og vefur gjarnan saman sögum, efni og litum. Hanna hóf rannsókn og þróun varnings í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands haustið 2022 - afrakstur rannsóknarinnar var sýningin Blíður Ljómi. Verkefnið hlaut styrk frá Myndstefi, Hönnunarsjóði og Launasjóði hönnuða.

Texti fyrir neðan frá Blíður ljómi sýningunni á HönnunarMars:

Á leið Hönnu Dísar á vinnustofu sína í sveitinni síðustu árin hefur hún fylgst með kindunum liggja makindalega í grasinu innan um strá og blóm. Á sumrin lýsa fyrstu sólargeislar dagsins upp allt umhverfið. Litirnir eru sterkir, fuglarnir háværir og lyktin ljúf. Notaleg gola hreyfir ullina og stráin í umhverfinu mjúklega. Fjöllin og jöklarnir í fjarska. Bláklukkur, blóðberg, mosi, fíflar og sóleyjar um allt. „Ég þarf að fara gera eitthvað með þetta“ hugsaði Hanna Dís og var það upphaf ferðalagsins sem þetta verkefni hefur verið.

Annars flokks ullin kemur af kindum af bænum Akurnesi í Nesjum, Hornafirði. Slík ull er enn vannýtt hérlendis og skilar litlu til bænda. Hönnuðurinn fór með ullina í Textíllab á Blönduósi. Þar var hún kembd saman við og lituð með garnafgöngum úr teppaframleiðslu Hönnu. Í kjölfarið var ullin sett í nálaþæfingarvél og búið til litríkt, sterkt og þæft efni sem hér er notað í fjölbreytt verk.

Stráin, hluti hafra uppskeru síðasta árs, voru hreinsuð og þurrkuð. Í kjölfarið voru þau handlituð, hvert strá klofið, flatt út og spónlagt með þeim. Strá hafa mikinn gljáa. Ekki þarf að bera á þau lakk eða annað yfirborðsefni þar sem þau eru náttúrulega vatnsvarin.

Bæði ullin og stráin gefa frá sér blíðan ljóma sem vísar í það umhverfi sem þau eru sprottinn úr.

Á sýningunni má m.a sjá mjúka veggskápa, spegla og hillur að hluta til úr ull. Laserskorin spónlögð strá innfelld í við og í samtali við keramik. Þæft og ofið gólfteppi, strá saumuð í textíl, veggteppi með smáatriðum úr stráum og ull og aðrar tilraunir.

Vefsíða Hönnunarmars: https://honnunarmars.is/dagskra/2023/blidurljomi

Vefsíða hönnuðs: https://www.hannawhitehead.com