Vatnsnes Yarn

Á Textílslóð í dag hittum við Kristínu frá Vatnsnes Yarn á Laugarbakka. Þið getið heimsótt vefsíðuna hennar - vatnsnesyarn.is - og skoðað meira af hennar glæsilega garni.

1. Hver ertu, og hvað gerir þú?
Ég heiti Kristín, bý á Hvammstanga í Húnaþingi vestra. Ég er handlitari, þ.e ég lita ull í höndunum og sel undir merkinu Vatnsnes Yarn. Ég er með vinnustofu í Skrúðvangi á Laugarbakka núna en byrjaði í eldhúsinu heima hjá mér árið 2016.

2. Hvernig kviknaði áhuginn á því að framleiða eigið garn?
Þetta bara einhvernveginn kallaði á mig. Allt ferlið er heillandi, að velja gott og fallegt hráefni til að vinna með, vera með ólitað garn í höndunum, tóman striga, og umbreyta því með einhverjum dýrðlegum lit. Það toppar síðan ferlið að sjá hvað viðskiptavinurinn hefur notað garnið í sem í flestum tilfellum eru handprjónaðar flíkur en einnig heklaðar og sumir eru að nota garnið frá mér í útsaum.

3. Hvers vegna prjónar þú?
Í fyrsta lagi finnst mér það mjög skemmtilegt. Það er eitthvað við áferðina á garni sem mér finnst aðlaðandi og litur hefur líka mikil áhrif á mig og svo finnst mér það stórkostlegt að ég geti búið til flíkur og hluti og með tveimur prikum og bandi.

4. Hvað ertu að prjóna núna?
Ég er með nokkur verkefni í gangi. Þrjár peysur, kraga og húfu svo eitthvað sé nefnt.