Jóhanna E. Pálmadóttir - Akri

Á Textílslóð í dag hittum við Johönnu Erlu. Jóhanna starfar hjá Textílmiðstöðinni á Blönduósi og er hjartað og heilinn á bakvið Prjónagleðina. Jóhanna var sæmd fálkaorðunni fyrir störf sín.

1. Hver ertu, og hvað gerir þú?

Ég er Jóhanna Erla Pálmadóttir verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands. Ég er textílkennari að mennt, sauðfjárbóndi í hjarta mínu, ástíðurfull handverkskona og beiti stundum fyrir mig hönnun. Í mínu starfi hjá Textílmiðstöðinni vinn ég að Prjónagleðinni, sem haldin er á hverju ári og hef umsjón með listamiðstöðinni. Einnig sé ég um kennslu í ullarvinnslu, prjóni, hekli og útsaumi ásamt ýmsum verkefnum sem til falla. Við tökum á móti ýmsum skólahópum sem fá kennslu í þessum greinum ásamt vefnaði sem Ragnheiður B. Þórsdóttir sér um.

2. Hvernig kviknaði áhuginn á því að vinna með textíl?

Ég lærði að prjóna fimm ára gömul af mömmu og ömmu og fyrir mér er það eins sjálfsagt að draga andann. Ég var allan minn ungdóm viss um að ég vildi verða handavinnukennari og þegar við hjónin fórum til náms til Danmerkur fór ég í slíkt nám og útskrifaðist sem textílkennari með útsaum sem aðalfag en prjón og myndvefnað sem aukafög. Réttindi hef ég til framhaldsskólakennslu og fullorðinsfræðslu.

Áhugi minn fyrir alls kyns þekkingu á sviði textíls hefur verið óþrjótandi. Prjónið og útsaumurinn er þó alltaf efst í huga mér.

Það sem ég hef verið hreyknust af í sambandi við prjón er gríðarlega mikið teppi sem vinur minn bað mig um að prjóna fyrir sig en hann ætlaði að koma konu sinni á óvart með því að gefa henni það. Það sem ég er stoltust af í sambandi við útsaum er refillinn sem fjallar um Vatnsdæla sögu en hann mjakast áfram með hjálp duglegs fólks.

3. Hvers vegna prjónar þú?

Get ekki annað því hendur og hugur eru svo óróleg ef ekkert prjónles er í vinnslu. Það er svo gefandi og skapandi að sjá prjónlesið verða til. Það eru til vísindalegar rannsóknir og niðurstöður um að prjón virkar eins og jóga því það er mjög „afstressandi“.

4. Hvað ertu að prjóna núna?

Er byrjuð að prjóna úr dásamlegu ullarbandi sem unnin var hjá Uppspuna úr ullinni okkar hér á Akri. Bandið er svo mjúkt og skemmtilegt í vinnslu að mér finnst að hendurnar á mér vinni ekki nógu hratt því hugurinn er jafnan kominn í næsta verkefni. Samt er ég búin með 3 peysur, tvenna sokka og eina vettlinga á mánuði ásamt ýmsu öðru.

Með tilkomu fleiri smáspunaverksmiðja á landinu vona ég að fleiri bændur nýti tækifærið og láti vinna sérstaklega úr ullinni sinni. Það er svo góð tilfinning að vera í flíkum og vinna flíkur úr sinni eigin ull.

    Mynd frá Jóhanna Erla Pálmadóttir.  Mynd frá Prjónagleði - Iceland Knit Fest.  Mynd frá Prjónagleði - Iceland Knit Fest.