Prjónasamkeppni - Sjávarsjal

Haldinn verður prjónasamkeppni í tengslum við þema Prjónagleðinnar, sem er „Hafið“. Dag hafsins ber nefnilega upp á laugardag 8. júní 2019!
Hafið hefur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir Ísland bæði í fæðuöflun og ferðalögum. Er því ekki full ástæða til að þakka fyrir sig og efna til hönnunarsamkeppni um hið eina sanna „sjávarsjal“? Markmiðið er að draga fram þýðingu hafsins og tengingu okkar við það. Hversu mikið skiptir hafið okkur máli... er það fiskurinn, fuglarnir, öldurnar, skipin, öll spennandi dýrin eða hreinlega bara litir hafsins, sem geta verið margskonar. Kannski skiptir það okkur hreinlega ekki neinu máli! Allir hafa sína tilvísun og verður spennandi að sjá útkomuna. 

Sjávarsjal - prjónasamkeppni

Forsendur/verklýsing:

  • Fullbúið sjal og frágengið. Má vera hvort sem er á barn eða fullorðinn.
  • Ný hönnun/mynstur.  Óheimilt að nota þegar útgefin prjónamynstur.
  • Sjölin þurfa að vera pjónuð en þó mega kantar og skraut vera hekluð.
  • Prjónaðar úr íslenskri ull sem unnin er á Íslandi.

Skila verður inn fullbúnu sjali sem að uppfyllir forsendur hér að ofan fyrir 10. maí 2019. Senda á: Textílmiðstöð Íslands, Árbraut 31, 540 Blönduós. B.t. Jóhanna. Þá skal fylgja lausleg uppskrift ásamt lýsingu á aðferð og upplýsingum um tegund garns/bands og prjónastærð. Nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang verður að fylgja í lokuðu umslagi merkt með nafni sjalsins (hver og einn nefnir sitt sjal). Fullum trúnaði er heitið, gagnvart dómnefnd, þeim sem senda inn sjölin. 

Þriggja manna dómnefnd mun velja þau sjöl sem komast í þrjú efstu sætin og verða öll innsend sjöl til sýnis á Prjónagleðinni. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og horft til frumlegustu og bestu útfærslunnar. Vinsamlegast athugið að sjölin verða endursend á kostnað eiganda - mælt með að þau verði tekin með heim í lok Prjónagleðinnar!

Verðlaun: Flottar gjafakörfur frá Ístex með teppi, prjónasetti, uppskriftum og garni. Verðlaunaafhendingin fer fram á laugardagskvöldinu, 8. júní 2019.