Um ullina

 • Rúningur
  Í árdaga var ullin reytt af kindunum (þaðan koma orðin “rúið”, “rúningur”, “rýja” ), enda lá hún nokkuð laus á skepnunni þar sem seinni endinn á “gömlu” ullinni var þæfður inn í nýju ullina sem var að vaxa fram. (Það tekur ullina um eitt ár að vaxa fram en þá kemur næsta vaxtarskeið sem byrjar og endar í febrúar/mars.) Áður var féð rúið í byrjun júlí en þá var nýja ullin vaxin fram um ca 3-5 sm og þá myndaðist svo kallað “skil” þar sem gamla ullin lá í nýju ullinni. Klippt var í skilunum þegar rúið var og féll þá gamla ullin frá en nýja ullin varð eftir á kindinni.

  Bændur á Íslandi í dag rýja í flestum tilfellum tvisvar á ári. Á haustin, helst á fyrsta degi, þegar féð er tekið á hús og síðan aftur í febrúar/mars þegar skil verður á ullarvextinum. Ástæðan fyrir því að ullin er rúin á haustin þrátt fyrir að hún er ekki fullvaxin út, er sú að á þeim tíma er ullin hreinust og heppilegust í vinnslu. Ekki þarf marga daga á húsi til að ullin skemmist af húsvist. Bændur selja megnið af sinni ull til Ístex. Þar eru uppgefnir ullarflokkar sem bændur síðan nýta þegar þeir flokka ullina sína við rúning. 

 • Flokkun
  Hér má sjá hvernig er ullin flokkuð: Myndband frá Ístex-Lopi.

        

 • Skammstafanir á ullarflokkum:
  H - Hvítt - haustrúningur og aftur í feb/mars
  M - Mislitt - haustrúningur og aftur í feb/mars
  L - Lambsull - haustrúningur og aftur í feb/mars
  V - Vetrarull - féð er bara rúið í feb/mars

 • Verðmestu flokkarnir
  Hreinir litir eru alhvítt, svart, grátt og mórrautt, óskemmd, hrein og illhærulaus ull sem nýtt er í spuna á bandi og lopa. Ístex vinnur alla 1. flokks ull í prjónaband og þarf oft á tíðum meira af þeirri ull en fæst út úr magninu sem kemur inn. Aðrir flokkar eru seldir út og mest af því fer í gólfteppaband.

 • Verðminnstu ullarflokkarnir
  Miðað er við haustull, þá ullarflokka sem kallast H 2, H 3 og M 2. (Sjá einnig: https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/stada-i-ullarmalum-vegna-covid-19). Þeir flokkar fylla ekki gæðakröfur í 1. flokk. Ullin er jafnvel með smá heymor (rusl úr heyi), ekki hrein með smá galla en ekki til skaða. M2 mislita ullin að mestu leyti ull af grámórauðu, flekkóttu og öllum skrýtnum litum sem ekki er hreinlit. Í þeim flokki getur ullin verið í 1. flokks gæðum en liturinn ekki hreinn. Í flokk 3 fer grófasta ullin t.d. af lærum en þar eru lengstu toghárin. (Sjá einnig: https://ullarmat.is/wp-content/uploads/2020/09/Ullarflokkun-2020.pdf

 • Vetrarull er rúin í feb/mars og nær ekki gæðum 1. flokks. Vetrar ullin er heilsársull af fé sem gengið hefur úti yfir veturinn. Oft er fénu gefið úti í gjafagrind og því hefur dregist hey yfir ullina þannig að hún er með mikil óhreinindi. Vetrarullin er líka feitari (með meira lanólín) en haustullin. (Sjá einnig https://ullarmat.is/ullarflokkar/hvit-vetrarull/ og https://ullarmat.is/ullarflokkar/saudalitir-vetraull/)

 • Snoð er klippt í feb/mars og er á sama vaxtarskeiði og sú ull sem klippt var að hausti. Snoð er stutt, mesta lagi 6-7cm og þelmikið en með óhreinindi af heyi eftir veturinn.

        Lömb 

                                                                  Mynd: Róbert Daníel Jónsson

 • Óunnin ull
  Ull sem ekki er farin í spuna. Þetta getur átt við á meðan ullin er enn á kindinni og þar til hún fer í spuna. Þvottur og kembing er ekki talinn sem vinnsla í þessu samhengi.

  Áhersla Textílmiðstöðvarinnar og Ullarþonsins er að hægt verði að nýta betur hér heima þá flokka sem annars eru fluttir út. Út frá umhverfissjónarmiðum er það miklu hagkvæmara að vinna sem flesta ullarflokka og hægt sé að koma því hráefni í vinnslu hér heima!