Nýsköpun í textíl á HönnunarMars 2020

F.v.: Sigríður Vala Vignisdóttir, Drífa Thoroddsen, Margrét Katrín Guttormsdóttir, Ragnheiður Stefán…
F.v.: Sigríður Vala Vignisdóttir, Drífa Thoroddsen, Margrét Katrín Guttormsdóttir, Ragnheiður Stefánsdóttir.
Ljósmynd: Myndlistaskólinn í Reykjavík á Instagram.

Textílmiðstöð Íslands verður í fyrsta sinn þátttakandi á HönnunarMars 2020, uppskeruhátíð í Reykjavík sem sameinar allar greinar íslenskrar hönnunar.

Meðal verkefna sem kynnt verða er ,,Nýsköpun í textíl", samstarfsverkefni Myndlistaskólans í Reykjavík og Textílmiðstöðvarinnar sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2019. Ragnheiður Stefánsdóttir, Sigríður Vala Vignisdóttir, Drífa Thoroddsen og Margrét Katrín Guttormsdóttir unnu með vefnaðarmunstur sem varðveitt eru í Kvennaskólanum á Blönduósi í þeim tilgangi að hanna úr þeim nýja vöru. Útfærslur þeirra voru kynntar í Myndlistaskólanum í Reykjavík í águst 2019. 

Samstarfið byggist á rannsóknaverkefni Textílmiðstöðvar sem ber heitið ,,Bridging Textiles to the Digital Future", styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís, sem verður einnig kynnt í heild sinni á HönnunarMars2020. Í því felst að skrásetja, koma í stafrænt form, mynda og flokka vefnaðarmunstrum, uppskriftum og vefnaðarprufum frá fyrri parti og fram eftir 20. öldinni og gera þær aðgengilegar í rafrænum gagnagrunni. Þessi gömlu munstur hafa nú þegar verið nýtt til að vinna vefskjöl fyrir TC2 – stafræna vefstólinn sem er í eigu Textílmiðstöðvar. Svo er verið að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð með nýsköpun í vefnaði, hönnun og textíl þar sem menningararfur í vefnaði er endurvakinn og endurskapaður.

Verkefnastjóri og sérfræðingur okkar, Ragnheiður Björk Þórsdóttir, mun halda námskeið á næsta ári fyrir þá fjóra námsmenn sem fengu styrkinn úr Nýsköpunarsjóði námsmanna þar sem þeir munu prufa að vefa hugmyndirnar sem kviknuði við þeirra hönnunarvinnu sl. sumar. Einnig verður haldið námskeið í meðferð og notkunn á TC2 vefstólnum fyrir félaga úr Textílfélagi Íslands nú í febrúar og mars.