Textile Academy - Æfingabúðir í stafrænum textíl

Bootcamp- námskeið - æfingabúðir í stafrænum textíl verður haldið dagana 13.-17. maí í Framtíðarstofu Tækniskólans í Reykjavík, Textílmiðstöðinni á Blönduósi og í Fab Lab smiðjunni á Sauðárkróki. Farið er yfir sambland af hefðbundinni textíltækni og textíltækni með stafrænni framleiðslutækni. Æfingabúðirnar eru haldnar af Textile-Academy, Fabricademy, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Textílmiðstöð Íslands, Fab Lab Ísland og Framtíðarstofu Tækniskólans í Reykjavík með sérfræðingum sem koma víða að. 

Æfingabúðirnar hefjast mánudaginn 13.maí í Reykjavík þar sem lagt verður af stað í vettvangsferð í Álafoss verksmiðjuna, ullarþvóttastöð og Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi. Á þriðjudeginum verður farið í vettvangsferð í Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki og Fab Lab smiðjuna á Sauðárkróki, þar sem gerðar verða tilraunir með fiskileður og mótun leðurs í þrívídd og laserskurðartækni nýtt. Á miðvikudegi verða æfingabúðirnar í Framtíðarstofu Tækniskólans í Reykjavík og verða gerðar tilraunir með silikiorma og meðferð silkis í framleiðslu auk litunartækni með bakteríum, og gerð og nýting lífræns efnis í textíl. Á fimmtudegi er farið yfir frjálsa hönnun í hringrásarhagkerfi textíls, notkun laserskurðartækni við textílvinnslu. Á föstudegi er farið yfir raftextíl (e-textíl), notkun á mjúkum skynjurum og verkefnavinna með skynjaratækni.

Innifalið í þátttökugjaldi eru ferðir frá Reykjavík til Blönduóss og Sauðárkróks ásamt gistingu aðfararnótt þriðjudags á Sauðárkróki. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins, Textile Academy Bootcamp 2019 Iceland og heimasíðu Fabricademy!